Fara í efni
Pistlar

Hljómsveit sem á erindi við áheyrendur sína

Það er ekki á hverjum degi sem ný hljómsveit kveður sér hljóðs á Akureyri. Þann 11. desember síðastliðinn var Akureyrarkirkja vettvangur tónleika sem vonandi marka tímamót í hljómsveitarstarfi á Akureyri. Hljómsveit Akureyrar hóf þá leik skipuð áhugafólki fyrst og fremst en með svolítilli styrkingu atvinnumanna. Fyrir undirritaðan voru tónleikarnir að sumu leiti afturhvarf til fortíðar á jákvæðan hátt þar sem upp rifjuðust minningar frá námsárum af þeirri orku sem einkenndi grasrótarstarf í tónlist á Akureyri. Í árdaga tónlistar á Akureyri var starfandi hljómsveit með sama nafni – Hljómsveit Akureyrar. Ekki veit ég hvort sú nýja sé hugsuð sem framhald þeirrar eldri en vel til fundið að halda þessu nafni á lofti enda sýnist mér þær eigi það sameiginlegt að vera vaxtarsproti sem vonandi nær að sá fræjum sem víðast og blómstra sem oftast á tónleikum eins og í Akureyrarkirkju um daginn. Óskandi er að HA laði til sín allan þann mannauð sem býr í tónlistarfólki á Akureyri og nágrenni en hefur mögulega skapað sér starfsvettvang á öðru sviði. Eins væri óskandi að HA fengi viðeigandi aðstöðu til að koma saman til æfinga með reglulegum hætti, svipað og kórar bæjarnis hafa, eins konar félagsaðstöðu.

Michael Clarke er ofurhuginn og ísbrjóturinn sem með óþrjótandi sköpunarkrafti sínum og trú á sjálfan sig og samstarfsfólk sitt á heiðurinn af þessu verkefni. Hans er hugmyndin, framkvæmdin og nú heiðurinn af stórskemmtilegum fyrstu tónleikum HA þar sem flutt var vel valin efnisskrá ýmissa verka sem hentuðu hljómsveit af þessari gerð og við þessar aðstæður. Sérstaklega ber þó að nefna frumflutning á verki eftir hljómsveitarstjórann þar sem hann rifjar upp á hnyttinn hátt Einvígið við kirkjuklukkurnar – 1971, en það ár fluttist Michael Clarke til Akureyrar. Hann kynnti hvert verk fyrir sig á hnitmiðaðann hátt fyrir áheyrendum með stuttum og fræðandi athugasemdum.

Einsöngvararnir voru ekki færri en fjórir enda þekkir Michael vel til mannauðsins hér í bæ á því sviði og fékk hann til liðs við HA nokkra af þeim bestu. Það var vel til fundið enda báru söngvararnir tónleikana að miklu leiti á herðum sér með fallegri framkomu og tilþrifamiklum söng. Þetta voru Helena Guðlaug Bjarnadóttir, Margrét Árnadóttir, Guðrún Ösp Sævarsdóttir og Reynir Gunnarsson. Auk þess léku einleik Sigrún Magna Þórsteinsdóttir á orgel, Anna Eyfjörð Eiríksdóttir á þverflautu og Þuríður Helga Ingvarsdóttir á fiðlu en hún var jafnframt leiðari HA. Þuríður, sem áður hafði lokið námi við Tónlistarskólann á Akureyri og stundað framhaldsnám að því loknu, að hún er feikigóður fiðluleikari, þó svo að hún stundi nú önnur störf, og gott dæmi um þann mannauð sem HA höfðar til.

Eins og ekki þarf að koma á óvart var flutningur tónlistarinnar svolítið misjafn. Greinilegt er að HA er að slíta barnsskónum – ef þannig má að orði komast, jafnvel varla komin í barnsskóna. Meðlimir hljómsveitarinnar voru greinilega misvel spilandi en inná milli voru sterkir einstaklingar sem miðluðu af reynslu sinni og studdu við þá sem stuðning þurftu. Þannig mun HA vaxa og dafna og eflast við hverja raun.

Akureyrarkirkja var þéttsetin og greinilegt að þar fer hljómsveit sem á erindi við áheyrendur sína. Ég er þess fullviss að HA mun eiga fastan og dyggan áheyrendahóp sem mun styðja við starfið með ýmsum hætti sé eftir því leitað. Ég legg til að stofnað verði vinafélag til stuðnings starfseminni.

Í framhaldinu má svo velta því fyrir sér hvert markmiðið er með flutningi tónlistar yfirleitt eða starfsemi hljómsveita og skrifa um það langar íhuganir, en það sem blasti við á tónleikum HA þetta desemberkvöld var spilagleði hljóðfæraleikaranna, söngvaranna og hljómsveitarstjórans annars vegar og viðtökur og þakklát bros tónleikagesta hins vegar. Þótt HA hafi ekki verið margmenn þetta kvöld var hún engu að síður stór. Tónleikarnir hreyfðu svo sannarlega við áheyrendum ef marka má athugasemdir á samskiptamiðlum. Er þá ekki björninn unninn, eða hvað ... ?

Þórarinn Stefánsson er píanókennari og -leikari

Gangstétt varð gúmmíi að bráð

Orri Páll Ormarsson skrifar
03. maí 2024 | kl. 16:30

Tengsl sitkagrenis við verkalýðsfélög

Skapti Hallgrímsson skrifar
01. maí 2024 | kl. 10:10

Hús dagsins: Gamli Skóli; Eyrarlandsvegur 28

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
30. apríl 2024 | kl. 06:45

Kartöflur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
29. apríl 2024 | kl. 11:30

Um þróun stafafuru

Sigurður Arnarson skrifar
24. apríl 2024 | kl. 09:15

Kanínuholan sem ekki er hægt að klípa sig frá

Rakel Hinriksdóttir skrifar
24. apríl 2024 | kl. 06:00