Barnamenning í Reykjavík styrkt

BIG BANG er ævintýraleg evrópsk tónlistarhátíð fyrir unga áheyrendur. Markmið hátíðarinnar er að auka aðgengi barna að tónlist.

 Barnamenningarsjóður Íslands úthlutaði styrkjum í fjórða sinn sunnudaginn 29. maí sl. og fjögur verkefni Menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar fengu alls 9.3 milljónir í styrki fyrir verkefni sem varða barnamenningu. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Menningar- og ferðamálasvið fær úthlutað stórum styrkjum úr Barnamenningarsjóði en verkefnin sem um ræðir í ár eru:

  • BIG BANG tónlistarhátíðin fyrir unga áheyrendur. Samstarf Barnamenningarhátíðar, Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur og List fyrir alla – 4 m.kr.
  • Sögur - skapandi skrif og Sögur – verðlaunahátíð barnanna. IBBY á Íslandi í samstarfi við Reykjavíkurborg (Borgarbókasafn, Reykjavík bókmenntaborg UNESCO, Barnamenningarhátíð og Skóla- og frístundasvið), RÚV og List fyrir alla  - 2 m.kr.
  • Safnið okkar - afmælisveisla. Listasafn Reykjavíkur fagnar 50 ára afmæli með því að bjóða börnum að rannsaka safnkostinn og velja á verk á sýningu  – 2 m.kr.
  • Sögusmiðjan – klúbbur fyrir skapandi krakka. Eva Rún Þorgeirsdóttir og Blær Guðmundsdóttir í samstarfi við Borgarbókasafnið - 1,3 m.kr.

Starfsfólk menningar- og ferðamálasvið er ákaflega stolt af af þessum glæsilegu verkefnum á sviði barnamenningar sem börn og fjölskyldur þeirra eiga eftir að fá að njóta á næsta ári.

Tilkynnt var um úthlutun styrkja við hátíðlega athöfn í Skála Alþingis. Forsætisráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra fluttu ávörp og Drengjakór Reykjavíkur flutti tónlistaratriði. Alls bárust 106 umsóknir og nam heildarfjárhæðin sem sótt var um rúmum 380 milljónum króna. Þriggja manna fagráð fjallaði um umsóknir og samþykkti forsætisráðherra tillögur stjórnar Barnamenningarsjóðs um úthlutun styrkja til 34 verkefna en heildarfjárhæðin nam 92 milljónum króna. Á vefsíðu Rannís er hægt að skoða öll þau verkefni sem fengu styrki í ár.