Rauðavíkingar fyrri alda

Í upphafi Þorsteins sögu stangarhöggs kemur fyrir orðið „rauðavíkingur“ sem hefur verið skýrt sem „mikill víkingur“ með vísun til orðsins „rauðagalinn“ sem fyrir kemur í Clári sögu og er þá einnig bent á frasann „rauður víkingur“ í Jómsvíkinga sögu sem hliðstæðu. Allt eru þetta þó stakdæmi og merking þeirra hlýtur að teljast óörugg, ekki síst í ljósi þess að í öðrum handritum allra þessara sagna eru notuð önnur orð. Í upphafi Þorsteins sögu er orðið „randavíkingur“ notað og er það ella óþekkt en rönd er skjöldur þannig að orðið er greinilega talið merkja víking með skjöld. Í dæminu úr Clári sögu má finna brigðið „rauður og galinn“ en rauða- í „rauðagalinn“ er þá túlkað sem eins konar áhersluforliður til herðingar og eins í orðinu „rauðavíkingur“ sem þá merki ‘mikill víkingur’. Hliðstæðan í Jómsvíkinga sögu hefur verið túlkuð þannig að um sé að ræða blóðþyrstan víking og gæti bent til að „rauðavíkingur“ vísi einnig til blóðþorsta. Það virðist hálf undarlegt að til séu „rauður víkingur“ og „rauðavíkingur“, eitt dæmi um hvort orð og þó hvort með sína merkingu.

Það sem vekur athygli er að þegar Þórarinn víkingur í Þorsteins sögu er kynntur sem „rauðavíkingur“ er eins og allir áheyrendur eiga að skilja hvað við sé átt en þó eru þessir rauðavíkingar hvergi annarstaðar til. Væri dæmið eðlilegra ef hann væri kallaður „randavíkingur“ þó að orðið sé ekki heldur til utan sögunnar? Merkir það þá víking sem sérhæfir sig í vörn, með skildi sínum? Eða er orðið í Þorsteins sögu misskilningur á frasa sem merkti ‘blóðþyrstur víkingur’? Mér líst eiginlega betur á það en áhersluforliðinn rauða- í rauðagalinn og rauðavíkingur því að af fjölmörgum orðum í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans sem hefjast á rauða- er þessi forliður ekki þekktur heldur eru orðin augljóslega tengd litnum sem víða má finna í náttúrunni.

Málið snýst auðvitað ekki um þessi sjaldgæfu orð heldur kannski frekar þann sið orðskýrenda fornsagnaútgáfna (og ekki síður skólaútgáfna) að setja fram skýringar á stakyrðum eins og þær séu hafnar yfir allan vafa þegar staðreyndin er sú að sérfræðingar vita alls ekki hvað þessi orð merkja og góð skýringartilgáta nemanda væri sennilega gagnlegri en að láta hann læra utanbókar að rauðavíkingur merki ‘mikill víkingur’ eða ‘blóðþyrstur víkingur’ þegar hvorugt liggur í raun fyrir.

Previous
Previous

Raunir fallega piltsins

Next
Next

Ófreskjan kemur í haust